mánudagur, október 25, 2004

Bali blogg 2

Það hefur liðið lengri tími á milli blogga en til stóð, en það verður að segjast að internetið hér á Bali er á snigils hraða og það er því vænlegri kostur að blogga sjaldnar og meira í einu. Við ætlum okkur þó að bæta úr þessu í Ástralíu. Við höfum gert ýmislegt síðustu daga og hér er nánari útlisting á því.

Ferðin til Lovina
Við fórum í ferð til norður Bali sem Kilroy agent-inn mældi sérlega með enda margt fallegt að sjá í þessari ferð. Við lögðum af stað snemma á fimmtudagsmorgun og stoppuðum fyrst í e-u hofi og skoluðum okkur upp úr heilögu vatni og fengum blessun frá munkunum. Batnandi fólki er best að lifa enda hugsðum við með okkur að svæðanuddarinn í Singapore yrði nú ánægður hefði hann séð til okkar. Eftir þetta hof fórum við í Monkey Forest en þar búa um 500 apar sem njóta mikilla vinsælda meðal ferðamanna. Þar sáum við eina tegund apa á öllum aldursskeiðum sem reyndust vera hinar mestu dúllur, meira að segja sá sem notaði öxlina á mér (Brynju) sem stökkpall áfram til vina sinna. Eftir þetta fórum við í annað hof en þar sem gædinn okkar reyndist með öllu mállaus á ensku vitum við voða lítið hvað var merkilegt við það. Við stoppuðum einning við tvíburafossa þar sem við fengum að puða svolítið og svitna enda mikill hiti. Síðan brunuðum við til Lovina, borgar í norður Bali, þar sem við gistum. Á hótelinu hittum við svo tvær norskar stelpur sem urðu okkur samferða til Kuta daginn eftir. Á heimleiðinni stoppaði gædinn bara eftir hentugleika og sleppti út nokkrum stoppum sem okkur hafði verið lofað. Annars var þessi ferð ágæt, mikið að sjá og gaman að hafa komið upp í fjöllin og séð hvernig fólkið býr þar. Hún hefði þó verið mun áhugaverðari ef gædinn hefði talað ensku, en það lítur út fyrir að við þurfum að “GOOGLE-A” alla staðina sem við stoppuðum á til fá frekari upplýsingar. Ekki alveg það sem við gerðum ráð fyrir þegar við borguðum ferðina.
Norsku stelpurnar höfðu frá ýmsu að segja enda búnar að ferðast í sjö vikur um Tæland, Malasíu og Singapore áður en þær komu til Bali. Þær gistu fyrst á hótelinu okkar hér í Kuta og urðu fyrir þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að stelpa frá Malasíu drukknaði í sundlauginni eina nóttina og þær voru viðstaddar og urðu vitni að aðgerðaleysi innfæddra. Vörðurinn á hótelinu gekk í rólegheitum að lauginni þar sem Ástralir, sem einnig gistu á hótelinu, voru að reyna að lífga stelpuna við. Það bar ekki árangur, sjúkrabílinn kom alltof seint og sjúkraliðarnir virtust ekki vita hvað ætti að gera. Stelpunum var vitanlega brugðið við þetta allt saman og fluttu sig strax á annað hótel.

Helgin
Við komum tilbaka úr ferðinni á föstudeginum og fórum út um kvöldið, fyrst á mexikanskan veitingastað og svo fórum við á djammið eftir að hafa sötrað örlítið á hótelherberginu hjá norsku stelpunum. Staðurinn sem við fórum á spilaði bara rapp lög og inn á milli komu eitt og eitt lag sem hægt var að dansa við. Við létum það þó ekki á okkur fá og dönsuðum við nokkur lög en þess á milli kældum við okkur niður. Ég (Brynja) fann mér balineskt eiginmannsefni að ég hélt, eða allt þar til hann fór úr hlýrabolnum (vegna hita, hann var ekki strippari) og fór að gera sér dælt við sauðdrukkna sænskar stelpur í efnislitlum fötum. Þar fyrir utan dansaði hann eins og ítalskur gigalo sem er verulega “cheesy”!
Á laugardagskvöldinu var svo ætlunin að fara út á lífið en við enduðum á kojunni upp á herbergi hjá okkur Guðrúnu enda vorum við allar of þreyttar til að fara út. Í gær vorum við búnar að ákveða að taka daginn rólega og fara í langþráð SPA. Við völdum tveggja tíma Spa pakka sem innihélt nudd og body scrub svo það var dekrað við okkur í dágóðan tíma. Annars mælum við ekki sérlega með því að sólbrunnið fólk fari í body scrub að fenginni reynslu.
Um kvöldið fórum við út á stað sem heitir Nero, en staðurinn er verulega flottur og nútímalegur. Maturinn var mjög góður og á góðu verði og kokteilarnir líka- sem skemmir ekki fyrir. Tónlistin var einnig góð, en DJ-inn á staðnum er búinn að sjóða saman tíu “lounge” diska sem eru einkennandi fyrir staðinn. Þegar við spurðum út í tónlistina bauðst Dj-inn til að spila nokkra aðra diska fyrir okkur sem hann gerði. Við fengum mjög góða þjónustu eða líkt og við værum prinsessur en manager-inn gaf okkur drykk og DJ-inn spilaði eftir okkar behag. Við erum staðráðnar í að fara á Nero aftur á þriðjudaginn, en ég (Brynja) get ekki hætt að hugsa um sverðfiskinn sem Guðrún fékk sér en hann var sjúklega góður!
Í dag voru svo rólegheit í gangi en ætlunin er að fara í dagsferð í fílagarð á morgun og fara á fílsbak. Norsku stelpurnar fara svo á miðvikudaginn til Sydney en við hittum þær kannski þar um helgina. Annars höfum við hugsað okkur að fara í annað SPA eða nudd í það minnsta áður en við yfirgefum Bali, enda sjáum við ekki fram á neitt nudd og dekur í Ástralíu. Við komum til Sydney á föstudaginn og þá er stefnan tekin á djamm á háhæluðum skóm, þá verða sko flipp-floppararnir og túristabolirnir skildir eftir heima! Annars er ég (Brynja) öll út í mjög undarlegum útbrotum, það mætti halda að ég væri með hlaupabóluna fyrir neðan hné. Það er eins gott að kínverska undrakremið sem ég var að kaupa bæti þetta sem fyrst en útbrotin passa engan vegin við gullskóna mína. Guðrún er litalega séð öll að koma til og er orðin svaka brún og sæt, meðan ég er meira svona brennd og misrauð af útbrotum og sólbruna á hinum ýmsu stigum. Tad er ekki alltaf tekid ut med saeldinni ad vera i solinni!!!

miðvikudagur, október 20, 2004

PARADIS BALI

Bali
VIÐ ERUM Í PARADÍS!
Nú erum við búnar að vera í tvo daga á Balí og erum sammála um að þetta sé algjör paradís-reyndar para paradis...her eru nefnilega ekkert nema por. Fyrsta daginn tókum við í að skoða okkur um, röltum á ströndina þar sem önnur hver kona bauð okkur handsnyrtingu og fléttur í hárið ásamt því allir sem við mættum buðu okkur góðan daginn og óskuðu okkur velfarnaðar...það var voðalega notalegt. Á aðal verslunargötunni misstum við okkur aðeins í að versla nauðsynjavörur fyrir bakpokaferðalanga...vörur eins og sushiskálar, glasamottur og aðra hluti úr skeljum-við erum ekki alveg búnar að ákveða okkur hvernig við ætlum að koma dótinu í töskurnar...en það verður vandamál fyrir næsta miðvikudag:) Um kvöldið fórum við út að borða á ágætis veitingastað þar sem meðal máltíð kostaði líklegast ekki meira en 300 krónur íslenskar. Ég (Guðrún) fékk mérq steiktar núðlur með grænmeti og þær kostuðu um 80 krónur og Brynja fékk sér smokkfisk með hrísgrjónum og sú máltíð kostaði um 200 krónur. Verðlagið hérna hentar okkur MJÖG vel en erum samt að reyna að vera sparsamar-eigum jú langa ferð fyrir höndum.
Í gær fórum við svo í GLÆSILEGA siglingu á litla eyju hérna rétt fyrir utan Balí...við fórum með glæsiferju þangað og um borð var hljómsveit og veitingar. Við sátum samt aðallega upp á dekki og létum sólina skína á okkur meðan við horfðum á fallega útsýnið í kringum okkur. Þegar við komum á eyjuna beið okkar afdrep með sundlaug, veitingastöðum og alls konar afþreyingu og höfðu allir í siglingunni ótakmarkað aðgang að þeim. Við fórum og “snorkluðum” í skærgræna sjónum og sáum marga litskrúðuga fiska. Þetta var alveg hápunktur ferðarinnar hingað til. Siglingin endaði svo með grilli þar sem við fengum alls konar balíneskan mat í bland við alþjóðlegan. Dagurinn í dag verður svo tekin í rólegheit og sólbað þar sem við erum að fara í tveggja daga ferð norður á eyjuna og höfum okkar einkabílstjóra til að koma okkur þangað. Á ferðinni ætlum við svo að stoppa hér og þar og skoða okkur um. Semsagt rólegheit þangað til í fyrramálið.

þriðjudagur, október 19, 2004

KBH-SINGAPORE

Jæja...loksins, loksins höfum við tíma til að greina frá ferðum okkar hingað til en við vorum að koma til Bali og sitjum núna á hótelherberginu okkar. Guðrún er búin að köngulóa-yfirfara herbergið, tölvan er í lagi og því er okkur ekki til setunnar boðið. Þar sem við höfum ekki staðið okkur sem skyldi í að blogga skiptum við þessu eftir áfangastöðum.

KBH

Eftir smá kortaflipp í fríhöfninni til að hita upp VISA kortin lentum við spenntar á Kastrup og héldum þaðan í kommúnuna þar sem Emma danska hafði áður búið en hún útvegaði okkur gistingu hjá þessum líka myndarlegu gaurunum. Þarna búa átta Danir í ekta kommúnu og stíllinn var eftir því. Við héldum fljótlega út á Moose enda þurftum við nauðsynlega að kæla okkur niður eftir svitakastið sem við fengum eftir að hafa borið farangurinn okkar upp á 6 hæð í kommúnuna. Reynir og Terry, ástralskur vinur hans, komu fljótlega á Moose og þá fór bjórinn að flæða. Terry hefur marg oft verið á Íslandi og þegar Reynir var að tala um krummaskuðið Albury í Ástralíu, var Terry fljótur að stinga ofan í hann um að Hvolsvöllur væri það al mesta krummaskuð sem hann hefði komið til um ævina. Guðrún sökk í sæti sínu og viðurkenndi búsetu sína í einu mesta krummaskuði landsins, að mati Ástralans sem sá eftir athugasemd sinni.
Eftir nokkra lítra af bjór, skriðum við svo upp í sófana -í svitakasti- um hálf 4, enda kannski ekki sniðugt að bræða úr sér strax fyrsta daginn. Á miðvikudeginum byrjuðum við daginn á leiksýningunni “Rapunzel” sem er barnaleikrit en Emma hin danska sá um hanna og sauma búningana. Það er ekki á hverjum degi sem maður fer á barnaleikrit á dönsku en Rapunzel var mjög skemmtileg og áhugaverð sýning. Restinni af deginum var síðan eytt í nokkrum búðum, heimsókn til Ingibjargar og rölt um Strikið. Um kvöldið hittum við svo Sigrúnu, Nínu, Vilhjálm, Lotte, Tue, Ulrik og Reyni en við fórum öll út að borða á Riz Raz -sem er noteabene einn besti grænmetisstaður KBH. Þaðan var svo ferðinni heitið á barinn...ekki mikill svefn þá nóttina enda þurftum við að leggja af stað út á völl um klukkan 4.

SINGAPORE
Eftir minjagripkaup í H&M, nokkra lítra af bjór og nokkurn þvæling í KBH, héldum við af stað eins og svefngenglar út á Kastrup í eitt lengsta ferðalag lífs okkar- í það minnsta hingað til- en ferðin til Singapore tók um sólarhring. Þegar við lentum í Singapore tók á móti okkur mikil hitastækja en það var um 33 stiga hiti og mikill raki sem verður líklega best líst svona: Farðu í laaaanga heita sturtu án þess að hafa baðherbergisgluggann opinn. Þegar þú ert búinn í sturtu, klæddu þig og blástu svo á þér hárið þangað til það er skraufaþurrt og það er bannað að opna hurðina eða neinn glugga. Þá líður þér eflaust álíka og okkur í Singapore. Við tókum fyrsta daginn með trukki, röltum um ChinaTown og smökkuðum mjög undarlega útgáfu af kjúkling, eða í flatkökuformi. Í China Town brugðum við okkur inn á fyrstu fótanuddstofu sem við sáum í okkar mesta sakleysi, en við ætluðum heldur betur að nostra við okkur enda mjög þreyttar í fótunum og áttum allt það besta skilið. Nuddið sem í boði var reyndist vera svæðanudd með tilheyrandi sársauka og kítli þar sem upp komst um allar okkar syndir og ólifnað. Sem dæmi ná nefna að lifrin reyndist í ólagi hjá okkur báðum, stressið einkenndi Guðrúnu og það var meira og minna allt að mér (Brynju). Því næst fórum í skemmtilega siglingu á Singapore-ánni, en þurftum að hafa okkur allar við til að halda okkur vakandi enda mjög “jet lagged” og vorum við meira og minna slefandi af þreytu, dasaðar af hitanum og kipptumst við í vöku/svefni alla siglinguna. Um kvöldið fórum við svo í Night Safari í dýragarði og gædinn í rútunni ávítaði okkur fyrir framan alla að hlusta ekki á sig en við vorum sífellt dottandi. Eftir safari-ið fórum við svo loksins að sofa enda veitti okkur ekki af enda búnar að vera vakandi í um 36 tíma.

Annan daginn í Singapore byrjuðum við á gæduðum túr um borgina þar sem ýmsum fróðleik var mokað í okkur af færibandi á misjafnlega skiljanlegri ensku. Rútan var sem betur fer ofkæld svo ferðin var hin þægilegasta. Að túrnum loknum fórum við á “aðal” shopping götuna í Singapore sem er vægast sagt himnaríki fyrir þá sem þjást af kaupæði en þar sem það á ekki við okkur kynntum við okkur ekki nein mall fyrir utan eitt, þar sem ætlunin var að kynna sér Apple aukadót. Það er skemmst frá því að segja að Apple tölvan er komin með nýtt batterí og þráðlaust netkort svo héðan í frá bloggum við mun oftar. Guðrún ætlaði svo að versla sér eitt stykki tölvu en hún reyndist vera uppseld sem var miður þar sem nýjasta iBook kostar einungis um 84.000 í Singapore. Í mallinu smökkuðum við líka helv....gott Sushi og rústuðum litlu innfæddu gellunum algerlega í sushi bita áti. Um kvöldið fórum við í Little India eða indverska hverfið í Singapore. Þar var mikið líf og fjör en þar er Deepivali ljósahátíð í gangi um þessar mundir. Það var mjög áhugavert að rölta um hverfið og margt sem bar fyrir augum, m.a. mikið af Sari, en ég (Brynja) keypti eina þrjá svo það verður aldeilis haldið indverskt þemapartý þegar við komum heim með tilheyrandi Bollywood stemmara.
Í morgun, síðasta daginn okkar í Singapore, byrjuðum við á morgunmat. Við grínuðumst með það að Guðrún væri klædd eins og þýsk lessa, sem gerði mig (Brynju) óbeint að kærustunni hennar. Guðrún var þar að auki öll út í marblettum á fótunum eftir svæðanuddið sem hugsanlega gaf fólki þá hugmynd að ég væri Wife beater...Við erum ekki lítið búnar að hlæja af þessu í dag og höfum við nú heitið sjálfum okkur því að klæðast mun kvenlegri fötum upp frá þessu til að koma í veg fyrir allan misskilning.
Við eyddum svo ágætis tíma á flugvellinum í Singapore sem er sá flottasti sem við höfum komið til og þjónustan til fyrirmyndar. Meðan við biðum eftir fluginu spáðum við og spekuleruðum í fólkinu sem gekk framhjá og grenjuðum úr hlátri eins og verstu gelgjur. Guð blessi íslenska tungu!
Á flugvellinum á Bali biðu okkar vægast sagt móttökur. Eftir smá panikk atakk (ég hélt að ég hefði týnt miðunum og pössunum...sviti...sviti) vorum við lang síðastar að ná í töskurnar okkar en við bandið biðu okkar fimm innfæddir karlmenn sem stukku upp til handa og fóta þegar við nálguðumst, kysstu hendur okkar og leiddu okkur áfram í gegnum völlinn með farangurinn okkar á bakinu. Við vorum síðan keyrðar upp á hótel ásamt sænsku pari sem er búið að vera á ferðinni í nokkrar vikur. Spider detective Guðrún Marta var ekki lengi að koma auga á köngulóna sem skreið á handlegg bílstjórans þegar hann var að aðstoða okkur við að skrá okkur inn en sem betur fer virðist herbergið okkar vera í lagi 7-9-13
Við erum nú á leið í háttinn enda ætlum við að vakna snemma til að hoppa niður á strönd sem er hérna hinu megin við hótelveggina en okkur skilst að það verði skínandi sól á morgun og ekta sólbaðsveður. Spurning að tjekka með SPA á morgun?!

sunnudagur, október 17, 2004

LOKSINS!

LOKSINS hofum vid orstutta stund aflogu til a lata vita af okkur en nuna erum vid staddar a flugvellinum i Singapur a leidinni til Bali. Planid var ad koma med ferdasoguna, hingad til, a netid i dag en tad verdur ad gerast a morgun...sma taeknivandamal i gangi. Annars er allt gott ad fretta...erum bunar ad vera a fullu sidan Groa keyrdi okkur ut a flugvoll sidasta thridjudag. Allavega lofum myndum og italegri ferdasogu a naestunni!

föstudagur, október 08, 2004

PAKKA-DJAMMA-KVEÐJA-DJAMMA

VÁ! Allt að gerast-síðasti dagurinn í vinnunni og LOKSINS búin að pakka og þar sem ekki gafst mikill tími til vangaveltna voru góð ráð dýr og hlammaði ég mér bara nokkrum sinnum ofan á töskuna til að geta troðið ööööööööörlitlu meira í hana. Semsagt nokkuð sátt við niðurstöðuna. Þá er aðeins eitt eftir fyrir utan að kveðja ættingja og vini en það er að djamma af sér rassg..... niðrí miðbæ Reykjavíkur og helst að gera hjúts skandal þannig að fólk hafi nú eitthvað til að tala um meðan maður er í burtu;) ......til að manns nánustu vinir gleymi manni ekki alveg jafn skjótt. Það væri svoldið súrt.
PS.4 dagar í brottför!

miðvikudagur, október 06, 2004

Farangursvangaveltur

Jæja nú styttist óðfluga í "reisuna miklu" og í því tilefni ákvað ég að testa bloggið okkar. Í dag eru 6 dagar í brottför (en við förum næsta þriðjudag sem er 12. október) og erum við þegar byrjaðar að pakka...sem er ansi erfitt með tilliti til þess að við ætlum að vera "skvísubakpokaferðalangar" en þurfum jafnframt að taka með praktísk ferðalangaföt þar sem planið er líka að ganga fjöll og skoða okkur um.....svo þurfum við náttúrulega líka að rogast með töskurnar heimshorna á milli og því má farangurinn ekki vera of þungur-skvísur mega nefnilega ekki vera sveittar með táfýlu. Þannig að það eru í mörg horn að líta við það "einfalda verk" að pakka niður.
En jæja ætli það sé ekki best að halda áfram að vinna og sýna mínar bestu hliðar svona síðustu vikuna í vinnunni-en ég held nefnilega að fólk muni best eftir manni eins og maður var þegar maður yfirgaf svæðið!!!!